Tuesday, January 01, 2008

2008

Jæja, þá er árið 2008 runnið upp. Það er svo skrítið með fólk, því finnst alltaf sem svo margt muni breytast þegar nýtt ár rennur upp, það býst við fleiri tækifærum, meiri orku, meiri staðfestu og betri tíð. Sem betur fer þá hefur þetta oft þær afleiðingar að fólk leggur sig meira fram, en það getur líka þýtt að fólk gerir sér óraunhæfar væntingar. Ég hef ákveðið að heilsan mín hljóti að batna á nýju ári, að mér muni takast að halda heimilinu í betra horfi, að ég fái allar hillurnar og hirslurnar sem muni gera gæfumuninn í skipulaginu, að ég fái föndurherbergi og föndri meira, að föndurherbergið verði einnig lærdómsherbergi þar sem ég muni læra mikið á komandi ári og svo framvegis. Auðvitað hef ég ákveðið að taka mig á og losa mig við bumbuna, en það er ekki bundið við nýtt ár, það er mál sem ég ætla að vinda mér í um leið og ég fæ meiri orku en hún hefur ekki komið öll til baka eftir lungnabólguna. Fram að því ætla ég að reyna að borða aðeins hollara fæði og minnka nammið, en það verður farið í það mál eftir lok jóla, 6. janúar. Stærsta heitið mitt er þó að reyna að finna góða barnsfóstru til þess að létta undir hér á heimilinu. Kannski fæ ég einhverja pólska sem getur komið til mín milli 5 og 8 og hjálpað mér að elda og fleira á meðan ég get slakað á með strákunum. Og þá höfum við svigrúm til þess að skreppa út í búð, að hitta fólk, að ná í hitt og þetta, fara með hitt og þetta og svo framvegis. Nú er maður svolítið strekktur í að reyna að halda utan um þetta allt saman og ekki batnar það eftir að ég byrja í skólanum 14. jan...

Svo áramótaheitið mitt er í rauninni ekkert, hins vegar ætla ég að nýta þetta tækifæri til þess að losa aðeins um fjötrana og njóta lífsins betur. Það kemur bara strákunum til góða ef við höfum orku til þess að sinna þeim betur. Hana fáum við með hvíld og með því að minnka daglegt stress. Og það er gott mál að hafa manneskju til að grípa til þegar mann langar að skreppa aðeins út á kvöldin....

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

Free Hit Counters
Web Site Counters