Friday, November 23, 2007

Skítaveður á rokrassgati

Já veðrið hérna á skerinu hefur verið til skammar að undanförnu. Það rigndi nær stanslaust í 2 mánuði með tilheyrandi roki og að undanförnu hefur verið frost og rigning og rok til skiptis. Manni er alltaf kalt og kvefið bara fer ekki! Ég bíð eftir að grípa lungun á mér þegar þau poppa upp í næsta hóstakasti, þetta fer að verða ágætt.
Kannski ég hefði átt að reyna að fá kallinn með mér til suðrænnar eyjar í viku í stað þess að fara til Boston, þar sem er nú þokkalega kalt á þessum tíma?
Ekki bætir úr skák að ég er ekki með neina almennilega flík til þess að glíma við veðurguðina, Kjartan var búin að kaupa handa mér þessa fínu 66°N úlpu, en hún fór öll í hass þegar ég setti hana í vélina! Ekki bætti úr skák þegar ég setti hana í þurrkarann, hún brann einhvern veginn öll að utan! Ég bíð svars frá fyrirtækinu um það hvort þeir ætli að láta mig fá nýja eða hvort þeir telji að ábyrgðin liggi hjá mér, þeir eru ekkert að flýta sér, það er komin vika síðan ég fór með hana og á meðan sit ég hér í hóstakasti og kvíði því að fara út fyrir hússins dyr
Kristófer er líka búinn að vera að hósta í langan tíma, en ég held þó að það fari skánandi sem betur fer. Alexander fékk vírus í augað í gær og ég er búin að fá áburð svo vonandi fer það sem fyrst. Meira ógeðið.
Kristófer er kallaður límheilinn af leikskólakennurunum á deildinni sinni, hann man allt og gengur rosalega vel að læra nýja hluti. Það er eins gott að vera ekkert að reyna að plata hann, hann er fljótur að sjá í gegnum mann.
Þorgeir er lítill sætur, smámæltur hnoðri. Kristófer hefur alltaf verið svo harður, en Þorgeir er miklu meira barn. Þeir geta unað sér vel saman, en stundum slær í kekki. Þá er það yfirleitt út af því að Kristófer sér tækifæri til þess að stríða litla guttanum, sem er með þvílíkt skap og rýkur upp...og þá skemmtir hinn sér vel! Þangað til að hann er laminn eða bitinn af litla villidýrinu....
Það verður gaman að sjá hvernig týpa Alexander verður, ég held að hann sé eitthvað sambland af hinum tveimur. Er ekki eins rólegur og Þorgeir var, en langt frá því eins órólegur og Kristófer var. Það er samt margt búið að breytast á stuttum tíma, er hættur á brjósti og er farinn að sofna einn í rúminu sínu á kvöldin. Ég tek hann þó alltaf uppí til mín á endanum. En þetta kemur allt....
Jæja best að fara að gera eitthvað...over and out.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

Free Hit Counters
Web Site Counters