Saturday, January 12, 2008

Ábyrgðarhluti

Ég er svolítið hissa á nýjasta pistli Guðbjargar Hildar Kolbeinsdóttur á mbl.is, þar sem hún bloggar um óþarfa þess að vera að mennta fólk sérstaklega í blaða- og fréttamennsku. Hún vísar í vin sinn sem hún segir vera fyrrverandi blaðamann (veit ekki hvort hann er raunverulegur eða ímyndaður til þess að auka áhrifagildi sagnar hennar), sem á að hafa sagt henni hversu mikinn óþarfa hann teldi mastersnám í blaða - og fréttamennsku vera. Hann á að hafa sagt að í blaðamannastéttina vanti fólk sem sé sérmenntað í hagfræði og viðskiptafræði. Ég spyr sjálfa mig bara hvort ekki sé til nóg af fólki með þessa menntun, sérstaklega í ljósi þess hve hlutabréfamarkaðurinn á undir mikið högg að sækja þessa dagana. Og af hverju er þá ekki fleira af þessu fólki að vinna við blaða- og fréttamennsku? Getur verið að það hafi ekki hæfileika til þess að skrifa fréttir eða bara einfaldlega ekki áhuga? Getur verið að fólk eins og ég hafi farið út í blaða- og fréttamennsku vegna þess að ég hef áhuga á því og vill auka færni mína áður en ég held á vinnumarkaðinn eftir áralangt nám og heimilisstörf?
Hún klikkar svo út á því að nefna EINN háskóla í Bandaríkjunum sem hafi hætt með þetta nám fyrir 10 árum síðan. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér málið, en getur verið að af öllum þeim ótalmörgu háskólum sem eru í Bandaríkjunum að þá séu enn ótaldir þeir skólar sem ekki hafa tekið þetta nám út af stefnuskránni? Ég get ekki séð þýðingu þess að einn háskóli hætti með þetta nám fyrr en ég veit í hvaða samhengi sú ákvörðun er tekin.
Ég tel að kona í þeirri stöðu sem Guðbjörg Hildur er í, verði að vega betur og meta það efni sem hún lætur fara frá sér á netið. Jafnframt tel ég að hún verði að koma með fleiri en eina hlið á jafn mikilvægu máli sem þetta er, hún sjálf er fyrirmynd og er að láta skilaboð frá sér fara sem hlustað er á. Ég vona að minnsta kosti að henni sé fyllsta alvara fyrst að hún skrifar á þennan máta og best þætti mér ef hún notaði ekki fyrrverandi blaðamann sem skálkaskjól.
P.S. Veit ekki við hvað hún starfar í dag, en hún var semsagt að kenna fjölmiðlafræði við HÍ.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

Free Hit Counters
Web Site Counters