Monday, June 18, 2007

Flutt...

...inn til mömmu!
Jæja þá erum við búin að flytja allt dótið okkar úr Andrésbrunni, þrífa og afhenda. Ég skal segja ykkur það að þetta var talsvert meiri vinna en við gerðum okkur í hugarlund. Það er eins og það sé ekki nóg fyrir mann að stækka við sig í hvert skipti sem maður flytur, maður kaupir greinilega dót til þess að fylla hvern krók og kima líka. Við notuðum heilan dag um síðustu helgi til þess að flytja dót og fluttum svo næstum allan afganginn núna á laugardaginn, sem var talsvert meira en við héldum. Við vorum að til miðnættis að pakka niður og ferja, þrátt fyrir að vera með stóran sendiferðabíl á leigu. Frikki kom og hjálpaði með fyrstu sendinguna og Sigga og Gummi skutust til að hjálpa með þá seinni þrátt fyrir að vera á leið í útskrift, takk Sigga og Gummi þið björguðuð okkur! En svo hélt stritið áfram þangað til við gátum ekki meir. Svo við geymdum smá dót þangað til næsta dag en þá ætluðum við að strjúka yfir allt. Einhvern veginn var þetta smádót bara slatta mikið dót og þrifin tóku drýgri tíma en útlit var fyrir. Við lukum verkinu um hálfníu, afhentum lyklana að íbúðinni og fórum svo á læknavaktina með Alexander. Það heyrðist gífurlegt urg og sarg í honum og hann átti erfitt með öndun. Lækninum leist ekki nógu vel á þetta svo hann sendi okkur á bráðamóttökuna þar sem litla krílið fékk friðarpípu og stera. Við vorum komin heim rúmlega tólf eins og kvöldið áður og allir pínu þreyttir. Kristófer og Þorgeir sváfu hjá ömmu og afa....en þeir voru þar alla helgina. En ég er ekkert smá ánægð að þessi kafli er búinn...þá er næsti kafli eftir eða að þrífa og ganga frá í Sóleyjarima. Ég get nú bara ekki hugsað svo langt án þess að fá hroll....

1 Comments:

Anonymous rósa said...

Þið getið alltaf huggað ykkur við að það er alltaf miklu skemmtilegra að flytja inn í hús en út úr því, þannig það versta er búið :-)
Er Alexander að jafna sig?

2:48 AM  

Post a Comment

<< Home

Free Hit Counters
Web Site Counters