Friday, June 29, 2007

Drottningin í götunni

Jæja þá er ég búin að eignast fyrstu óvinkonuna í Sóleyjarima. Ég fór þangað hálfátta í gær til þess að veiða dót upp úr ruslinu, sem stigakallinn átti og ég mátti víst ekki henda. Ég var smá stressuð að ná í þetta áður en hann mætti aftur og Alexander minn var hágrátandi í aftursætinu. Ég held samt að ég hafi ekki ekið á ólöglegum hraða í hverfinu, þótt ég hefði örugglega mátt aka hægar. En þar sem ég er búin að koma dótinu fyrir og er að fara að hugga Alexander, kemur ljóshærð kona askvaðandi inn á mína lóð og stendur yfirlætislega yfir mér og spyr mig hvort ég sé nú ekki til í að aka hægar inn hverfið næst að það séu nú börn þarna og blablabla. Eins og hún sé yfirvaldið í götunni og ég einhver aumur gestur sem komi alltaf á ofsahraða inn í hverfið hennar.! Sem er einmitt ekki það sem ég geri, ég er nú vön því að smiðirnir séu að labba þarna fram og til baka yfir götuna án þess að líta til hægri né vinstri og margir leyfa eins á hálfsárs börnum meira að segja að leika sér á aðalgötunni áður en maður beygir inn í hverfið....
Svo ég segi ekki neitt og huga að Alexander. Þegar ég kem aftur að ökumannsdyrunum stendur hún enn yfir mér og spyr mig aftur. Ég segi að kannski hafi ég verið eitthvað stressuð en ég sé ekki vön því að keyra hratt um hverfið. Þá ítrekar hún þetta og ég fer bara inn í bíl og keyri burt. Þessi kona býr í sömu lengju og ég, svo ef ég væri hún hefði ég vandað fyrstu kynnin aðeins betur og farið öðruvísi að. Í fyrsta lagi er þetta algerlega ósanngjarnt því ég er ekki vön að keyra of hratt um hverfið og í öðru lagi hefði hún getað kynnt sig fyrst og bryddað svo á því í framhjáhlaupi að fólk ætti að aka varlegar um hverfið en það geri, þótt ekki væri nema barnanna vegna. Ég er þvílíkt móðguð. Ekki það að maður gleymir sér stundum, viðurkenni það, en þetta var ekki sanngjarnt.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

Free Hit Counters
Web Site Counters