Saturday, January 26, 2008

Ný síða...


Hér er síða sem ég gerði í gær...en ég reyndar breytti henni aðeins, svo þetta er ekki lokaútkoman...er ekki alveg sátt við einn hlut en ég ætla að halda honum fyrir mig. Ætla að reyna að hemja freistinguna að taka síðuna alla í sundur og enda með því að eyðileggja hana. Stundum fer fullkomnunaráráttan alveg með mig...ég er svo óþolinmóð að ef ég er ekki búin að ná tökum á einhverju strax þá er allt ónýtt! En ég er búin að kaupa alltof mikið dót til að fara að gefast upp!!!

Friday, January 25, 2008

Fjör í kotinu....

Strákahópurinn minn...



Já það er fjör hér í Sóleyjarimanum í dag. Kjarri úti í Frankfurt á "viðskiptafundi", mega-merkilegur! hehe....


Já hann alltaf að hugsa til framtíðar hann Kjarri minn. Við erum hér heima, Toggi og Alexander búnir að vera slappir, svo Kristó fékk bara að vera heima líka. Eins gott, las svo að það hefði verið varað við því að fólk færi út í óveðrið sem geisaði í morgun.

Hins vegar hefur geisað annars konar óveður hér með köflum og mamman hefur stundum þurft að hækka röddina, ekkert alvarlegt, en hins vegar hefur ekkert verið mikið hlustað á mömmu. Um leið og hún hefur snúið sér við hefur fyrri athöfnum verið haldið áfram....Svona er þetta bara. Ég hef notað tækifærið, þar sem ég hef ekkert þurft að læra (eða getað það er að segja, alla vikuna) og skoðað mikið það sem mig hefur vantað í skrapp- og kortagerðina! Fékk þennan forláta grip fyrir nokkrum dögum og nú er ég að bíða eftir nokkrum stimplum.



Er svo að hugsa um að kaupa mér liti, bíð eftir svari frá Kjartani hann ætlar að athuga þetta úti!
Púff....það tekur á að vera áhugamanneskja um föndurvörur og verslun á netinu! En það er líka gaman, Kjartan segir alltaf við mig að það sé gaman að fá pakka! Líklega er það rétt hjá honum...það er svo spennandi að fá pakka í póstinum, þá hefur maður eitthvað til að hugsa um og hlakka til.
En ég fæ pössun um helgina til þess að reyna eftir bestu getu að klára þau verkefni sem ég þarf að skila á mánudaginn kemur. Svo kemur Kjarri á sunnudaginn og þá getur maður kannski gert eitthvað seinnipartinn...sé það reyndar ekki í anda svo ég ætla að reyna að nýta tímann vel sem ég hef á morgun...
Jæja hafið það gott esskunnar mínnar!

Tuesday, January 22, 2008

Happy birthday to you, happy birthday to you....

....happy birthday mr. president, happy birthday to you!
Innilega til hamingju með afmælið í gær elsku Halla mín!
Það var gaman að heyra í þér, heyrumst betur fljótlega krúttan mín!

Thursday, January 17, 2008

Góður dagur

Jæja, þá er dagurinn hálfnaður og ég búin með viðtalið. Þetta gekk nú bara öllum vonum framar. Ég var kannski fullmikið að grípa frammí og eyðileggja flæðið og segja jájájájájá...en ég var að minnsta kosti meðvituð um það og ég veit að þetta kemur allt með æfingunni! Ég var bara mjög glöð og ánægð og sérstaklega ánægð með að vera í þessu námi eftir að ég kláraði. Fann allt í einu til mikils léttis og gleði....kannski er ég bara í síðasta náminu mínu og verð EITTHVAÐ eftir að ég klára það. Þá get ég tekið eitthvað annað svona að gamni mínu...ég er allavega voðalega bjartsýn í augnablikinu. Ég er líka eitthvað svo ánægð með hvað verkefnin vaxa mér ekkert í augum. þegar ég var í áfanganum eigindlegar rannsóknaraðferðir fyrir örugglega 3 árum, þá miklaði ég það svo mikið fyrir mér að taka viðtöl. Hélt ég fyndi engan og þorði varla að tala við fólk, nú er ég bara að hugsa um hvern ég gæti talað við sem hefði eitthvað áhugavert að segja. Ég hef engar áhyggjur af því þótt fólk segi nei og voðalega litlar áhyggjur af því við hvern viðtalið sé. Auðvitað er fólk misjafnlega tilbúið til þess að koma í viðtal hjá óbreyttum mastersnema, en það er bara allt í lagi, ég skil það mjög vel!

Kannski er ég farin að finna fyrir því að lífið er ekkert endalaust og maður á að láta vaða á meðan maður mögulega getur....ég veit eiginlega ekkert hvað það getur annað verið því ég hef aldrei verið jafn kvíðalaus!


En annars er allt ágætt að frétta. Krakkarnir í stuði og við bara nokkuð sátt. Erum ekki farin að vinna almennilega í því að fá aðstoð á heimilið, en það kemur þegar við erum í stuði til þess að takast á við það. Núna er maður hálfvegis að humma þetta fram af sér því manni finnst þetta dýrt, manni finnst áhætta að fá fólk til þess að vera inni á heimilinu og með strákana og svo er maður með hálfvegis samviskubit því manni finnst vegið að súperkonu og karls ímyndinni held ég. Hmmmm.


En allt búið að sinni....
Og huldumaðurinn er......


.....Egill Helgason.

Wednesday, January 16, 2008

Gleði og vonbrigði

Vorum að reyna að finna nýjan leikskóla handa strákunum í Grafarvogi í morgun. Því miður er þetta ekki rétti tíminn til þess að skipta. Okkur langar að fá þá hingað og svo finnst okkur þetta líka ágætis tími fyrir tilbreytingu hjá þeim...

En við setjum þá á lista og sjáum til.

Ég er byrjuð í skólanum og líst mjög vel á þetta. Það er auðvitað strax byrjuð svaka heimavinna og ég geri ekki neitt, hvorki les né leysi verkefni. Er maður ekki týpískur. Er reyndar að fara að taka viðtal við mjög frægan mann á morgun, fyrsta verkefnið í blaða og tímarita áfanganum. Ákvað bara sjálf að taka viðtal við þennan fræga og klára mann í stað þess að reyna að finna einhverja fjarskylda vinkonu...svo ég sendi honum bara meil og hann samþykkti strax að tala við mig! Engir stjörnustælar þar...vona bara að hann taki mig ekki í bakaríið á morgun! Hann er nefnilega þekktur þáttastjórnandi og tekur menn í nefið hægri og vinstri....

Saturday, January 12, 2008

Ábyrgðarhluti

Ég er svolítið hissa á nýjasta pistli Guðbjargar Hildar Kolbeinsdóttur á mbl.is, þar sem hún bloggar um óþarfa þess að vera að mennta fólk sérstaklega í blaða- og fréttamennsku. Hún vísar í vin sinn sem hún segir vera fyrrverandi blaðamann (veit ekki hvort hann er raunverulegur eða ímyndaður til þess að auka áhrifagildi sagnar hennar), sem á að hafa sagt henni hversu mikinn óþarfa hann teldi mastersnám í blaða - og fréttamennsku vera. Hann á að hafa sagt að í blaðamannastéttina vanti fólk sem sé sérmenntað í hagfræði og viðskiptafræði. Ég spyr sjálfa mig bara hvort ekki sé til nóg af fólki með þessa menntun, sérstaklega í ljósi þess hve hlutabréfamarkaðurinn á undir mikið högg að sækja þessa dagana. Og af hverju er þá ekki fleira af þessu fólki að vinna við blaða- og fréttamennsku? Getur verið að það hafi ekki hæfileika til þess að skrifa fréttir eða bara einfaldlega ekki áhuga? Getur verið að fólk eins og ég hafi farið út í blaða- og fréttamennsku vegna þess að ég hef áhuga á því og vill auka færni mína áður en ég held á vinnumarkaðinn eftir áralangt nám og heimilisstörf?
Hún klikkar svo út á því að nefna EINN háskóla í Bandaríkjunum sem hafi hætt með þetta nám fyrir 10 árum síðan. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér málið, en getur verið að af öllum þeim ótalmörgu háskólum sem eru í Bandaríkjunum að þá séu enn ótaldir þeir skólar sem ekki hafa tekið þetta nám út af stefnuskránni? Ég get ekki séð þýðingu þess að einn háskóli hætti með þetta nám fyrr en ég veit í hvaða samhengi sú ákvörðun er tekin.
Ég tel að kona í þeirri stöðu sem Guðbjörg Hildur er í, verði að vega betur og meta það efni sem hún lætur fara frá sér á netið. Jafnframt tel ég að hún verði að koma með fleiri en eina hlið á jafn mikilvægu máli sem þetta er, hún sjálf er fyrirmynd og er að láta skilaboð frá sér fara sem hlustað er á. Ég vona að minnsta kosti að henni sé fyllsta alvara fyrst að hún skrifar á þennan máta og best þætti mér ef hún notaði ekki fyrrverandi blaðamann sem skálkaskjól.
P.S. Veit ekki við hvað hún starfar í dag, en hún var semsagt að kenna fjölmiðlafræði við HÍ.

Thursday, January 10, 2008

Óstjórn í borginni

Hvað er málið með þessa ónýtu kumbalda niðrí bæ sem á að fara að halda uppá??? Þurfum við virkilega á því að halda að vernda svona drasl sem fellur ekki einu sinni undir verndunarreglurnar samkvæmt fyrstu skoðun, það virðist svo hafa snúist við vegna þess að eitthvað frægt lið er að ybba sig. Finnst þessu fólki virkilega að það sé ekkert annað mikilvægara til þess að eyða peningunum í??? Hvað með leikskólana, þar sem vantar tugi manna til þess að fullmanna þá???? Og sem dæmi þá veit ég dæmi þess að fullfrískur maður með ónýt lungu var tekinn út af biðlista þar sem hann var kominn á aldur (60 ára!) þótt hann ætti mörg ár eftir ef hann fengi aðgerð....Hvað ætli þetta bruðl með þessa ógeðslega ljótu og ónýtu húsakofa gæti heilað marga veika??? (Ég veit að það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að halda uppi heilbrigðiskerfinu, en ég tek þetta sem dæmi um skrítna forgangsröðun hér á landi.) Og svo ég tali nú ekki um hvað miðbærinn má við andlitslyftingu!!! Mig minnir að það hafi verið talað við arkitekt (frægan en ég man ekki nafnið) í kringum brunann á gamla húsinu við Lækjargötu og hann sagði að það þyrfti að byggja nýtt í bland við gamla. Í borgarferðamálafræði er talað um það að við eigum að vernda það gamla en ekki alltaf á kostnað á þess nýja, sagan endurnýjar sig og húsin endurspegla þá tíma sem eru hverju sinni. Nú erum við til og þá megum við taka ákvörðun um að rífa eitthvað niður sem löngu er hætt að þjóna tilgangi sínum og byggja nýtt sem hentar okkar tíma. Í Brussel til dæmis er af og til byggt nýtt, en það þarf að fara eftir ströngum reglum, til dæmis varðandi hæð húsanna sem þarf að vera í samræmi við borgarlandslagið.
Af hverju er í lagi að endurbyggja hús algerlega þannig að ekkert stendur í raun eftir af uppruna þess, en má ekki byggja hús sem er í stíl við miðbæinn og er kostað af einkaaðilum sem munu koma til með að græða á þessu og vonandi allur miðbærinn????? Þetta er skítapólitík og ekkert annað.

Wednesday, January 09, 2008

Daglegt líf og netheimar

Þetta var annasamur en mjög ánægjulegur dagur. Ég náði í Kristófer og Þorgeir á leikskólann klukkan ellefu þar sem Kristófer hafði kvartað undan verkjum í hálsi. Ég átti hvort eð er að ná í þá klukkan eitt, þar sem mannekla hefur enn á ný, hrundið af stað skerðingu á vistartíma í leikskólum borgarinnar. Klukkan eitt var svo bókuð 5 ára læknisskoðun á Kristófer, sem hann stóðst með prýði. (Þroskaskoðun og próf fyrst...).
Fyrst fór hann einn inn með hjúkkunni og við Þorgeir slógumst aðeins frammi...minn maður þreyttur og átti erfitt með að vera kyrr;). Þegar við komum inn tjáði hún mér að Kristófer hefði staðið sig eins vel og hægt var og undrunin skein úr augum hennar þegar ég sagði henni að á leikskólanum hefði okkur verið ráðlagt að fara með hann í próf vegna ofvirkni og athyglisbrests. Hún sagði óbeint að það væri svo langt frá því að geta staðist sem mögulegt væri, þetta væri bara skýr og orkumikill strákur sem þyrfti að hafa mikið fyrir stafni. Hún sagði að hún hefði nú tekið á móti nokkrum og það hefði í fyrsta lagi aldrei gengið að senda slíkt barn eitt inn í skoðunina...og hún sagði ýmislegt fleira. Ég var svo ánægð að heyra þetta, enda vorum við Kjartan svo hissa þegar þetta kom upp í leikskólanum, hann er nefnilega búinn að þroskast svo mikið. Hann er alltaf eins og engill þegar við förum með hann í búðir og fleira, það er bara mikið fjör í honum og hann er svolítið stríðinn...Það er litli þriggja ára púkinn sem þarf að vera í handjárnum núorðið....hehehehe!!!
En eftir að þetta próf var búið fórum við til læknisins sem skoðaði hann og vildi senda hann í lungnamyndatöku, þar sem honum fannst surga aðeins í vinstra lunganu. Sem betur fer virðist þó ekkert ama að barninu....7, 9, 13!

Og allt er bara voða gott að frétta af öllum.

En eitt í viðbót...er ég ein um að vera að flippa yfir óvönduðum færslum og kommentum illgjarnra Íslendinga á blogginu???? Áður fyrr fluttu blaðamenn fréttir og gáfu út fréttaskýringar og þá voru þær kröfur gerðar að þeir vönduðu heimildarvinnuna sína, já og hefðu aðgát í nærveru sálar. Í dag eru allir blaðamenn...og enginn virðist þurfa að taka ábyrgð á skrifum sínum!!??? En trúið mér...þannig verður það ekki að eilífu. Við erum bara ekki alveg búin að ná utan um þetta bloggæði sem heltekið hefur þjóðina, allir þeir sem eru með meðvitund eru farnir að blogga. Og það er einmitt málið, það er oft erfitt að átta sig á persónuleika fólks í gegnum bloggið. Þar eru margir sem eru til dæmis formlega greindarskertir og þroskaheftir og blogga svo eins og þeim lystir og fá alls konar komment frá venjulegu fólki...sem ég held að átti sig ekki alltaf á því að það er að ræða við fólk sem hefur kannski ekki getu til þess að hugsa rökrétt.

Sunday, January 06, 2008

Smá skrapp í gangi

Ég er ekki búin að vera neitt sérstaklega dugleg að skrappa að undanförnu þar sem ég er ekki með neitt skrifborð, en mér tókst þó að pína 2 fram úr erminni...Ég nota bara pappakassa, gólfið og hinar ýmsu töskur sem borð þangað til! Er ekkert voðalega ánægð með það, það býður ekki upp á mikið dundur, en á meðan uni ég hag mínum best að safna meira skrappdóti í sarpinn mwhahahahaaaaa!!!!!







Saturday, January 05, 2008

Bara klikk náttlega...






Já erum við ekki farin að skima um eftir hagstæðum tilboðum í sumarferðina...Finnst einhverjum kannski nóg um, en ef ég á að segja satt þá væri ég sko til í að fara í sólina núna í febrúar líka! Þetta skítaveður og kuldi sem er alltaf á þessu skeri hérna er að gera útaf við mig. Svona viðkvæm kona eins og ég er, með mína útsprungnu hendur og bronkítis alltaf á veturna, get bara ekki verið hérna nema í ákveðinn tíma held ég. Þegar ég er sem verst til dæmis á höndunum og er búin að vera að bera á mig áburð og vera í hönskum og ég veit ekki hvað og hvað allan veturinn, þá þarf ég samt ekki nema einn sólarhring í hlýrra loftslagi til þess að sárin grói. Og eftir 2-3 daga, sést ekki einu sinni að ég hafi borið þess merki að vera viðkvæm fyrir kulda. Meira að segja strákarnir fá svona þurrkubletti á fæturnar og bakið eins og ég hef stundum fengið.
Já svo við ætlum bara að taka á stóra okkar og fara með fótboltaliðið út...já það verður fjör! Mig kvíður svolítið fyrir því að passa þá alla á ströndinni, annars staðar er ekkert mál að vera alltaf með a.m.k. einn eða tvo í vagni og kerru. En ef maður fer á ströndina verður maður nú að leyfa Alexander að kæla sig þótt ekki sé meira og þá vandast málið...það má auðvitað ekki líta eina sekúndu af neinum! En ég held að þetta verði í lagi. Og ef það verður eitthvað vesen þá skiptum við okkur bara meira niður...
Við erum ekkert búin að ákveða hvert við ætlum að fara...sem er bara mjög skemmtilegt! Það verður bara fyrst og fremst að vera heitt þar!!!

Tuesday, January 01, 2008

2008

Jæja, þá er árið 2008 runnið upp. Það er svo skrítið með fólk, því finnst alltaf sem svo margt muni breytast þegar nýtt ár rennur upp, það býst við fleiri tækifærum, meiri orku, meiri staðfestu og betri tíð. Sem betur fer þá hefur þetta oft þær afleiðingar að fólk leggur sig meira fram, en það getur líka þýtt að fólk gerir sér óraunhæfar væntingar. Ég hef ákveðið að heilsan mín hljóti að batna á nýju ári, að mér muni takast að halda heimilinu í betra horfi, að ég fái allar hillurnar og hirslurnar sem muni gera gæfumuninn í skipulaginu, að ég fái föndurherbergi og föndri meira, að föndurherbergið verði einnig lærdómsherbergi þar sem ég muni læra mikið á komandi ári og svo framvegis. Auðvitað hef ég ákveðið að taka mig á og losa mig við bumbuna, en það er ekki bundið við nýtt ár, það er mál sem ég ætla að vinda mér í um leið og ég fæ meiri orku en hún hefur ekki komið öll til baka eftir lungnabólguna. Fram að því ætla ég að reyna að borða aðeins hollara fæði og minnka nammið, en það verður farið í það mál eftir lok jóla, 6. janúar. Stærsta heitið mitt er þó að reyna að finna góða barnsfóstru til þess að létta undir hér á heimilinu. Kannski fæ ég einhverja pólska sem getur komið til mín milli 5 og 8 og hjálpað mér að elda og fleira á meðan ég get slakað á með strákunum. Og þá höfum við svigrúm til þess að skreppa út í búð, að hitta fólk, að ná í hitt og þetta, fara með hitt og þetta og svo framvegis. Nú er maður svolítið strekktur í að reyna að halda utan um þetta allt saman og ekki batnar það eftir að ég byrja í skólanum 14. jan...

Svo áramótaheitið mitt er í rauninni ekkert, hins vegar ætla ég að nýta þetta tækifæri til þess að losa aðeins um fjötrana og njóta lífsins betur. Það kemur bara strákunum til góða ef við höfum orku til þess að sinna þeim betur. Hana fáum við með hvíld og með því að minnka daglegt stress. Og það er gott mál að hafa manneskju til að grípa til þegar mann langar að skreppa aðeins út á kvöldin....
Free Hit Counters
Web Site Counters