Friday, June 29, 2007

Fyrsti göngutúrinn

Jæja, þá er ég búin að fara í fyrsta göngutúrinn í Grafarvogi. Það var mjög þægilegt að komast frá húsinu mínu og ganga um (að vísu vantar alla göngustíga í götuna og næstu götur). Veðrið var líka yndislegt. Ég fór í búð, enda Spöngin rétt hjá og Alexander sofnaði strax. Svo ég dreif mig í Sóleyjarima og náði að laga slatta til í bílskúrnum á meðan Alexander svaf. Svo þessi dagur lofar góðu...

Drottningin í götunni

Jæja þá er ég búin að eignast fyrstu óvinkonuna í Sóleyjarima. Ég fór þangað hálfátta í gær til þess að veiða dót upp úr ruslinu, sem stigakallinn átti og ég mátti víst ekki henda. Ég var smá stressuð að ná í þetta áður en hann mætti aftur og Alexander minn var hágrátandi í aftursætinu. Ég held samt að ég hafi ekki ekið á ólöglegum hraða í hverfinu, þótt ég hefði örugglega mátt aka hægar. En þar sem ég er búin að koma dótinu fyrir og er að fara að hugga Alexander, kemur ljóshærð kona askvaðandi inn á mína lóð og stendur yfirlætislega yfir mér og spyr mig hvort ég sé nú ekki til í að aka hægar inn hverfið næst að það séu nú börn þarna og blablabla. Eins og hún sé yfirvaldið í götunni og ég einhver aumur gestur sem komi alltaf á ofsahraða inn í hverfið hennar.! Sem er einmitt ekki það sem ég geri, ég er nú vön því að smiðirnir séu að labba þarna fram og til baka yfir götuna án þess að líta til hægri né vinstri og margir leyfa eins á hálfsárs börnum meira að segja að leika sér á aðalgötunni áður en maður beygir inn í hverfið....
Svo ég segi ekki neitt og huga að Alexander. Þegar ég kem aftur að ökumannsdyrunum stendur hún enn yfir mér og spyr mig aftur. Ég segi að kannski hafi ég verið eitthvað stressuð en ég sé ekki vön því að keyra hratt um hverfið. Þá ítrekar hún þetta og ég fer bara inn í bíl og keyri burt. Þessi kona býr í sömu lengju og ég, svo ef ég væri hún hefði ég vandað fyrstu kynnin aðeins betur og farið öðruvísi að. Í fyrsta lagi er þetta algerlega ósanngjarnt því ég er ekki vön að keyra of hratt um hverfið og í öðru lagi hefði hún getað kynnt sig fyrst og bryddað svo á því í framhjáhlaupi að fólk ætti að aka varlegar um hverfið en það geri, þótt ekki væri nema barnanna vegna. Ég er þvílíkt móðguð. Ekki það að maður gleymir sér stundum, viðurkenni það, en þetta var ekki sanngjarnt.

Thursday, June 28, 2007

Maðurinn sem gerir við stigann minn

Hann kom í dag...tilbúinn með græjurnar að ráðast á stigadjöfulinn. Vonandi nær hann að særa alla illa anda úr þessum stiga sem gert hefur okkur lífið svo leitt að undanförnu.
Trésmiðjan kemur og fer og kemur svo ekki lengi. Þeir eru búnir að vera að dútla í þessu í mánuð...en sem betur fer ekki mikið eftir. Er MJÖG ánægð með það sem komið er. Semsagt allt gott að frétta úr húsinu.
Alexander er að jafna sig.
Kristófer fór í fimm ára afmæli aleinn í gær og skemmti sér konunglega.
Og hvað á að segja um elsku Þorgeir...jú hann er tveggja ára. Þið sem þekkið til vitið hvað það merkir...

Friday, June 22, 2007

Jólahjól eða þannig sko

Hjóladagarnir miklu eru komnir og farnir í leikskólunum hjá strákunum. Við náðum ekki að kaupa hjól fyrir hjóladaginn hjá Kristófer, en honum tekst hvort eð er alltaf að stela sér einum og einum hjólatúr þar sem hann nær í hjól. Ég veit ekki hvenær hann byrjaði að læra að hjóla, hann fór að prófa hjól niðrí leikskólanum á Stúdentagörðunum svona tveggja ára eða svo. Hann er því alveg sjálfhjólandi í dag, engin dramatík í gangi að sleppa þar. Kemur þegar hann hættir að nota hjálpardekkin kannski. Þorgeir er ekki alveg jafn öruggur, enda tveir gjörólíkir karakterar þar á ferð. Hann kann ekki fótstigin en prófar aðeins. Hann vildi að minnsta kosti ólmur fá hjól líka og pabbi varð ljúfur við þeirri bón.

Amma er í heimsókn hjá mömmu og pabba líka, svo það er mikið fjör í Þingásnum, sannkölluð stórfjölskylda samankomin þessa dagana. Strákarnir una sér vel í mannmergðinni, nóg af athygli þar. Þorgeir laumast stundum upp í rúm til afa og Kristófer kúrir hjá pabba.

Monday, June 18, 2007

Flutt...

...inn til mömmu!
Jæja þá erum við búin að flytja allt dótið okkar úr Andrésbrunni, þrífa og afhenda. Ég skal segja ykkur það að þetta var talsvert meiri vinna en við gerðum okkur í hugarlund. Það er eins og það sé ekki nóg fyrir mann að stækka við sig í hvert skipti sem maður flytur, maður kaupir greinilega dót til þess að fylla hvern krók og kima líka. Við notuðum heilan dag um síðustu helgi til þess að flytja dót og fluttum svo næstum allan afganginn núna á laugardaginn, sem var talsvert meira en við héldum. Við vorum að til miðnættis að pakka niður og ferja, þrátt fyrir að vera með stóran sendiferðabíl á leigu. Frikki kom og hjálpaði með fyrstu sendinguna og Sigga og Gummi skutust til að hjálpa með þá seinni þrátt fyrir að vera á leið í útskrift, takk Sigga og Gummi þið björguðuð okkur! En svo hélt stritið áfram þangað til við gátum ekki meir. Svo við geymdum smá dót þangað til næsta dag en þá ætluðum við að strjúka yfir allt. Einhvern veginn var þetta smádót bara slatta mikið dót og þrifin tóku drýgri tíma en útlit var fyrir. Við lukum verkinu um hálfníu, afhentum lyklana að íbúðinni og fórum svo á læknavaktina með Alexander. Það heyrðist gífurlegt urg og sarg í honum og hann átti erfitt með öndun. Lækninum leist ekki nógu vel á þetta svo hann sendi okkur á bráðamóttökuna þar sem litla krílið fékk friðarpípu og stera. Við vorum komin heim rúmlega tólf eins og kvöldið áður og allir pínu þreyttir. Kristófer og Þorgeir sváfu hjá ömmu og afa....en þeir voru þar alla helgina. En ég er ekkert smá ánægð að þessi kafli er búinn...þá er næsti kafli eftir eða að þrífa og ganga frá í Sóleyjarima. Ég get nú bara ekki hugsað svo langt án þess að fá hroll....

Friday, June 15, 2007

Draumnum seinkar

Það lítur ekki út fyrir það að við séum að flytja inn í Sóleyjarima á næstunni. Það á eftir að laga stigann og þegar það er búið (en ég held ekki í mér andanum á meðan ég bíð eftir verktökunum) þá á eftir að setja upp handriðið. Fyrr flytjum við ekki.
En það er rífandi gangur í tréverkinu. Smiðurinn hann Kristján er að verða búinn að setja upp eldhúsið og það er klikkað flott...set inn myndir fljótlega. Það er líka búið að setja hurðarnar upp og það var byrjað að setja upp innréttinguna á baðið uppi í dag.
Í morgun var sumarhátíð hjá strákunum og ég kom með þeim í skrúðgöngu. Svo fórum við Alexander en strákarnir grilluðu pylsur...set inn myndir fljótlega af þessu líka.
Alexander var mjög pirraður í dag og grét mikið. Mamma hans er að gera hann vitlausan á öllu þessu flandri út um allt, alltaf að kaupa og skoða í húsið. Í dag þurftum við að kaupa húna á hurðarnar, velja hanka á eldhúsinnréttinguna og kaupa vask og blöndunartæki...allt á sitthvorum staðnum. Það var þreyttur og útgrátinn gutti sem sofnaði með mömmu sinni í stóra rúminu hennar í dag...hjartað mitt var að springa þegar hann grét sem mest. En ég held að hann hafi jafnað sig greyið og við hvíldum okkur vel á meðan pabbi fór með hina strákana til læknisins og svo fóru þeir að panta mælingu á borðplötuna í eldhúsið.
Þegar það var búið fóru þeir í Hagkaup að versla, en það er mikið í uppáhaldi hjá litlu mönnunum. Pabbi þeirra leyfir þeim að vera með sitthvora litlu kerruna og svo fá þeir að tína það sem pabbi kaupir í þær og hjálpa pabba. Hann sleppur þannig við að keyra kerru sjálfur...barnaþrælkun??? Hahaha.....

Thursday, June 14, 2007

Og þá vorum við tvö...

Með ömmu á leikvellinum á Álftanesi einn góðviðrisdag í lok maí...

Slakað á á Laugarvatni í besta veðri sem við höfum fengið í júní.
Alexander krúttí. 9.920 kíló og 69 sm.
Skóálfurinn....

Ákvað að senda Þorgeir í leikskólann í dag, þótt hann sé svolítið kvefaður ennþá. Hann var orðinn mjög leiður á að hanga heima og var einungis með 38 stiga hita á mánudaginn. Hins vegar er hann með eyrnabólgu...sem er samkvæmt lækninum að ganga niður og hann vill fá hann í skoðun á morgun frekar en að setja hann á sýklalyf.

Svo við Alexander erum ein heima og ég verð að viðurkenna að það er frekar tómlegt hérna núna. Það er notalegt að hafa hina guttana nálægt þótt lætin í þeim stigmagnist eftir því sem líður á daginn...

En Alexander fær þá kannski smá athygli.

Tuesday, June 12, 2007

Sumarið er komið!

Kortéri eftir að ég kvartaði undan íslenska sumarveðrinu í gær fór sólin að skína. Það var að vísu ekkert sérstaklega hlýtt, en veðurguðirnir hafa sannarlega bætt úr því í dag. Sólin skín sem aldrei fyrr, vind hreyfir ekki og úti er steikjandi hiti. Mæli með því að hafa loftkælinguna á í bílnum, sé hún til staðar. Ég sá Snæfellsjökul svo skýrt að mér fannst ég geta rétt út hendina og snert á honum.
Þorgeir er heima í dag líka. Hann var ekkert hress með það þegar hann vaknaði og ég set hann aftur á leikskólann á morgun. Hann var líka bara með 38.2 stiga hita mest í gær og alveg hitalaus í dag.
Ég fór í Þjóðskrána og breytti heimilisföngunum okkar, hefði kannski frekar átt að setja lögheimili okkar í Þingásinn, eigum örugglega eftir að verða þar í góða stund áður en við getum flutt í Sóleyjarimann.

Monday, June 11, 2007

Sól, sól skín á mig....

Ég nýt þess að liggja á sólbekknum og sleiki hlýja sólargeislana, ég næ mér í ískalt hvítvín og góða samloku með salati og laxi. Mér er orðið ansi heitt, ég verð að stökkva í sturtuna og kæla mig niður með ísköldu vatni....íslenska sumarið er óviðjafnanlegt. Ætli það sé svona hlýtt fyrir norðan? Ég veit ekki alveg hvað hitinn er hár, giska á svona 26 gráður á celcius, hefur áður verið svona hlýtt í Grafarholtinu? Ekki síðan bygging hófst á svæðinu hugsa ég...og verður líklega aldrei. Raunveruleikinn er sá að ég sit hér í sófanum í hálftómri stofunni, en við fluttum megnið af búslóðinni í Sóleyjarima á laugardaginn, þrátt fyrir að langt sé í land að klára framkvæmdir þar. Það er í kaldara lagi úti miðað við að það sé 11. júní og skýjað. Alexander er í leikgrindinni sinni að horfa á Derek sem útskýrir hegðun drauga í hinum ýmsu bæjum á Englandi mjög fjálglega. Þorgeir er heima í dag því hann er veikur og hann hefur æst upp í öfugu hlutfalli við lækkun hitans eftir að hann fékk hitastíl. Hann er búinn að vera að sparka í mig og hlaupa um, en er nú frammi í gangi að flippa með skófatnaðinn, hann er með "shofetish" á háu stigi og ég býst við því að hann vinni í skóbúð á Manhattan í framtíðinni og selji fínum frúm hátískuskó og stígvél. Kristófer fór í leikskólann í dag, það er íþróttadagur og hann var mjög vonsvikinn af því að íþróttaálfsbúningurinn er óhreinn síðan hann var að tína orma í garðinum hjá ömmu Heiðu í gær. Ég heyri skruðninga, Þorgeir er kominn á kaf inn í skápinn frammi á gangi og er að róta öllu til...ég nenni ekki að skipta mér af honum, Alexander er sofnaður og ég veit að ef ég tek Þorgeir úr skápnum fer hann að öskra og hlaupa um og vekur litla barnið.
Við fórum í bíltúr í gær, keyrðum aðeins austur og skoðuðum bústaðalönd og létum okkur dreyma. Við stoppuðum stutt á Laugarvatni og ég set inn myndir bráðlega....alllar græjur til að hlaða inn myndum eru í Sóleyjarima. Þar var gott veður...heitt og logn. Go Laugarvatn!
Næstu helgi verðum við að vera flutt...svo við verðum víst að flytja til ömmu á meðan. Það verður fjör þar á næstunni!
Sem betur fer er Kjartani farið að langa að skreppa eina helgarferð í sumar svo ég vonast til að við skreppum í tvær nætur til einhverjar skemmtilegrar Evrópuborgar og drekkum kaffi og slöppum af í sólinni í smástund, Alexander kæmi að sjálfsögðu með en hinir grallararnir yrðu heima hjá ömmunum sínum. Ég þarf líka sárlega að komast í HM og versla aðeins fyrir strákana, fötin eru gjörsamlega að eyðast upp, enda duglegir að leika sér!
Jæja krossa puttana og vonast eftir kraftaverki! Er orðin ansi leið á veðrinu hér og endalausu veseni með iðnaðarmenn og verktaka....svo ég tali nú ekki um starfsfólk í gardínubúðum með ENGA þjónustulund. Best að segja ekki meira um það á þessari stundu.
Eigið góðan dag og reynið að njóta ykkar í sólarleysinu...þið sem eruð erlendis í betra loftslagi, hugur minn er hjá ykkur!

Wednesday, June 06, 2007

Til hamingju með afmælið Brynja!

Góða kvöldið.

Ég reyndi að hringja í Brynju til að óska henni til hamingju með daginn...en það svaraði bara einhver fúll Þjóðverji. Asvananan...eitthvað svoleiðis var það sem hann sagði og það var það eina sem ég fékk upp úr honum. Endaði með því að ég lagði á, nennti ekki að vera að eyða afsökunarbeiðni í þennan andskota. En semsagt, til hamingju með afmælið elsku Brynja mín. Ég virðist ekki vera með réttan gsm síma hjá þér og myndi meta það mikils ef þú sendir mér símann þinn í emeili. En njóttu dagsins dúllan mín.

Dagurinn fór í læknastúss hjá mér, alltaf að tékka á einhverju. Þegar maður er orðinn svona gamall og hrukkóttur fer maður að verða paranoid um að allt sé að fara til fjandans þegar maður finnur einn og einn hnúð. En so far so good. Reyndar fór ég til tanna líka og það er ekki hægt að segja að ég sé í góðum málum þar. Ég er í góðum höndum auðvitað, en það er allt að hrynja í munninum á mér. Hver rótfyllingin á eftir annarri, tennur sem brotna, krónur á leiðinni og implönt á dagskránni. Guð minn góður, hvað var ég að spá? Af hverju notaði ég ekki oftar tannþráð og sleppti öllu súkkulaðinu og kökunum??? Sem hefði kannski leitt það af sér að ég notaði skemmtilegra fatanúmer. En við skulum ekki tala meira um það.

Tuesday, June 05, 2007

Íslenskt sumarveður

Ég sit inni í rólegheitum. Skrapp út í dag og var að sinna nokkrum smá-erindum, en var fegin að komast aftur inn í hlýjuna. Nú sit ég semsagt við tölvuna og hlusta á rokið og rigninguna sem ræður ríkjum úti fyrir. Það er samt ekki eins notalegt og þegar maður er í einbýlis- eða raðhúsi þar sem maður heyrir rigninguna berja þakið. Í fjölbýlishúsi er takmarkað hversu mikið maður heyrir því maður er svo vel dúðaður af veggjum...
En það er að komast niðurstaða í stigamálið, hann verður ekki tekinn niður þar sem það er of mikið mál (þyrfti að taka hann niður með loftpressu, með tilheyrandi látum), en í staðinn verður hann tekinn eitthvað í gegn, styrktur og múraður upp á nýtt.
Ég er ekki búin að ákveða mig enn með gardínur, off-white, ljósgráar (virka eins og hvítar) eða beige??? Hvað finnst ykkur? Er beige eins og það sé búið að reykja í 30 ár í húsinu, það sagði kallinn í gardínubúðinni þegar ég spurði hann útí beige (sem ég var þá eiginlega búin að ákveða að taka ehem). By the way, leðurstólarnir okkar eru beige...hvað er annars beige á íslensku, já það er semsagt drapplitaður/eða ljósbrúnn. En ég er að tala um alveg ljós-ljós-ljósan!!!!
Það er semsagt lítið að frétta, jú búin að panta sorptunnu og kallarnir í trésmiðjunni skrópuðu í dag og í gær svo eldhúsið tefst enn....

Það má alltaf reikna með nokkrum aukamánuðum þegar maður tekur við húsi sem er tilbúið til innréttinga. Sérstaklega þegar maður fær það rétt fokhelt!!

Oh, mig langar svo í eina viku til Tyrklands...skoða Pamukale og Ephesus...slaka á, borða vel og versla teppi. En.....

Njótið dagsins!

Friday, June 01, 2007

Afmælið mitt og fleira skemmtilegt í lok maí/byrjun júní

Váááá......

Sjáið bara hvað ég á rómantískan mann! Ég fékk nafnlausa rósasendingu á afmælisdaginn og var hálf ráðvillt. Hélt kannski að hún hefði verið frá leynilegum aðdáanda...en Kjartan sannfærði mig um að hann hefði sent hana...damn. Jæja, við örvæntingafullu húsmæðurnar látum okkur bara dreyma áfram. En án gríns þá var þetta rosalega gaman og lífgaði sannarlega upp á hvunndaginn!


Alexander krútt á leiðinni í bað.


Þorgeir og Kristófer 31. maí...ansi þreyttir og ekki í stuði til að brosa fyrir myndavélina...


En þá er maí liðinn, þetta hefur verið ágætis mánuður, bjartur og fínn. Ekki mjög heitur en þetta stendur allt til bóta er það ekki? Verður víst meðalsumar hér á Fróni...
Við erum ekki á leiðinni til Tyrklands eða Spánar til að fá hita í kroppinn að þessu sinni...fáum rushið frekar í hvert sinn sem við förum í bygginga- eða heimilisvöruverslanir og kaupum inn fyrir Sóleyjarima...
Það sem er að frétta af þessu draumaverkefni okkar er annars það að eldhúsinnréttingin er á fullum swing, kom smá babb í bátinn í dag þegar þurfti að laga staðsetningu á nokkrum tenglum áður en smiðurinn gat haldið áfram, en við höfðum bara samband við handlaginn.is sem voru ekki seinir á sér að redda rafvirkja.
Það getur verið að það verði að skipta um stiga, gæti verið erfitt í framkvæmd en allir eru sammála um að hann sé ekki alveg eins og hann ætti að vera. Það kemur í ljós á mánudaginn hvernig þeim málum verði reddað...
En annars óska ég ykkur öllum bara innilega gleðilegrar helgi, ég verð að skottast með strákunum mínum á meðan pabbi fer að klára að leggja parketið með afa. Stuð!!!!

Free Hit Counters
Web Site Counters